Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 16:37:37 (2763)


[16:37]
     Kristín Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Hér eru til umræðu breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem er árviss viðburður í þingsölum. Ég vil gera það að örstuttu umtalsefni þó það hafi nú reyndar komið fram í máli fleiri hér á undan hversu undarlegt það er að þetta skuli ætíð bera upp á háannatíma þingsins þegar örfáir dagar eru til stefnu til að afgreiða þessi mál. Það er mitt mat að það væri mun heppilegra og farsælla fyrir þjóðfélagið allt að breytingar á skattalögum fengju betri umþóttunartíma, kæmu fyrr, helst fyrst að hausti, gætu hugsanlega verið afgreiddar endanlega rétt fyrir jól en fengið umfjöllun allt hausttímabilið en tækju síðan gildi ári síðar. Mér skilst að í öðrum löndum teljist það mjög óeðlileg vinnubrögð að vera sífellt að breyta skattalögum. Þetta leiðir til þess að skattalegt umhverfi okkar er mjög óöruggt og síbreytilegt og erfitt að gera áætlanir til langs tíma. Því það sem gilti í fyrra gildir næstum því örugglega ekki næsta ár. Ég mundi því leggja til að breytt vinnubrögð væru tekin hér upp hvað þetta atriði varðar.
    Mig langar síðan að nefna nokkur atriði í þessu frv. sem hér er til umræðu og staldra fyrst við endurgreiðslu á lífeyri, þ.e. skattfrelsi 15% útborgaðs lífeyris. Að mínu mati er þetta mjög slæm aðferð. Við kvennalistakonur höfum ítrekað flutt frv. um afnám á tvísköttun lífeyris. Í fyrsta skipti haustið 1991. Þar lögðum við til að framlag launþega, 4%, væru skattfrjáls, þ.e. sama fyrirkomulag nánast og var í gamla skattkerfinu. Ástæðurnar fyrir því að þetta er eðlilegasta og réttlátasta leiðin eru ýmsar. Kannski er ástæða til að nefna nokkrar þeirra. Það er m.a. það að ekki munu allir þeir sem greiða í lífeyrissjóði njóta iðgjalda úr sjóðum, það ná ekki allir eftirlaunaaldri. Það er líka ákveðin hvatning til að byggja upp sjóðina. Það er ákveðin óvissa með lífeyrissjóðina og tilvist þeirra. Munu þeir verða til þegar það fólk sem er nú á besta aldri þarf á sínum lífeyri að halda? Um það þarf auðvitað að standa vörð. Síðan er það að tekjudreifing fólks eftir aldri er veruleg. Yngra fólk hefur hærri tekjur og því miður er það svo að langflestir eftirlaunaþegar og lífeyrisþegar njóta ekki mjög hás lífeyris þannig að flestir þeirra eru undir skattleysismörkum, því miður. Þar af leiðandi hefur þetta lítið gildi nema fyrir hina sem hafa háar lífeyrisgreiðslur úr sínum sjóðum. Þetta mundi einnig gagnast einyrkjum með viðbótarútfærslu en þeir eru margir hverjir eins og hér hefur komið fram áður ákaflega illa tryggðir hvað lífeyrisgreiðslur varðar. Hér er einnig lögð til framlenging á skattafslætti vegna fárfestinga í atvinnurekstri. Ég tel að það sé jákvæð aðgerð og sjálfsagt að halda þessu áfram. Við Íslendingar þurfum að efla eiginfjárhlutfall í íslenskum atvinnurekstri, við þurfum að hvetja fólk til að fjárfesta í atvinnurekstri þannig að þessi framlenging er jákvæð og eðlileg. Eini gallinn á henni í upphafi var hversu fá fyrirtæki voru viðurkennd í þessa fjárfestingu fyrir þennan afslátt en þeim hefur nú fjölgað verulega.
    Mig langar einnig að nefna síðan leigutekjur af húsnæði. Hér er tekin upp ný grein þar sem heimilað er að draga frá leigutekjur allt að 80% eða að hámarki 25 þús. kr. frá tekjum. Ég hef blendna skoðun á þessu. Mér finnst þetta skref í rétta átt en þó verður að muna eftir því að venjulegt fólk sem er að leigja sitt eigið húsnæði þarf að búa einhvers staðar annars staðar. Það leigir þá væntanlega ef það er ekki í þessu í hálfgerðu atvinnuskyni og það fólk á væntanlega ekki rétt á húsaleigubótum. Mér þætti eðlilegra að það væri einhvers konar jöfnunarregla þannig að það væri heimild til að jafna húsaleigutekjur og húsaleigugjöld þannig að fólk sem þarf að flytja sig vegna náms eða af atvinnuástæðum mundi ekki gjalda fyrir þetta.
    Í þessu frv. er einnig breyting sem kölluð hefur verið niðurfelling á ekknaskatti sem felst í því að fella niður hærra skattþrepið í eignarskatti. Ég sé ekki mikla réttlætingu í þessu eða hagsbót fyrir ekkjur og fellst á þann málflutning sem hér hefur komið fram. Ég vil þó minna á að Kvennalistinn flutti fljótlega eftir að þessi breyting kom fram frv. sem flutt var af Kristínu Halldórsdóttur þar sem lagt var til að ekkjur eða ekklar fengju að búa áfram í því húsnæði sem hjónin bjuggu þá í við fráfall makans með óbreytta eignarskattsbyrði af því húsnæði. Að sjálfsögðu gilti það ekki um aðrar eignir. Þetta frv. náði ekki fram að ganga, því miður. Það hefði verið mun meiri og betri réttarbót heldur en það sem hér er lagt til.
    Í þessu frv. er einnig grein sem fjallar um flýtifyrningar. Ég get ekki betur skilið þetta heldur en að þetta gagnist auðvitað fyrst og fremst þeim fyrirtækjum sem hafa hagnað. Ég sé ekki alveg af greininni hvort gert er ráð fyrir því að fyrirtækin myndi millifæranlegt tap með þessari flýtifyrningu og hef þar

af leiðandi efasemdir um þessa útfærslu.
    Hér er síðan haldið áfram með hátekjuþrep en mörkin eru rýmkuð heldur þannig að greiðsla á hátekjuþrepi kemur til síðar en áður var. Þarna munar einhverju fyrir hátekjufólk og er heldur verið að létta af því böggunum. Mér finnst þetta ekki að öllu leyti ósanngjarnt. Við erum með geysiháa skatta hér á landi og fólk er að borga mjög háa tekjuskatta og ég get ágætlega stutt það að þetta sé heldur rýmkað þó að þessi réttarbót eða jöfnun sé nú með dálítið öfugum formerkjum eins og ég skildi af þessari kynningu.
    Þá er ég búin að hlaupa í fljótu máli yfir nokkrar greinar sem stungu mig svona sérstaklega í augu. Ég vil ítreka það hversu óheppileg ég tel að þessi vinnubrögð séu varðandi skattabreytingar og minna á þörfina á að skattalöggjöf þarf að vanda og vanda svo vel að það þurfi ekki í sífellu að vera að breyta þeim.